Viðskipti erlent

Segir engan ó­hultan ef gervigreindarbólan springur

Kjartan Kjartansson skrifar
Sundar Pichai, forstjóri Alphabet, varar við áihrifum þess ef gervigreindarbólan springur. Tæknin sem slík sé þrátt fyrir það þess virði að þróa. Pichai telur hana þá byltingarkenndustu sem mannkynið hefur unnið að.
Sundar Pichai, forstjóri Alphabet, varar við áihrifum þess ef gervigreindarbólan springur. Tæknin sem slík sé þrátt fyrir það þess virði að þróa. Pichai telur hana þá byltingarkenndustu sem mannkynið hefur unnið að. Vísir/EPA

Forstjóri móðurfélags tæknirisans Google segir ekkert fyrirtæki sleppi óskaðað ef gervigreindarbólan sem hefur þanist út springur. Hann telur ýmislegt skrýtið í kýrhausnum í gervigreindarfárinu sem geisar.

Fjöldi sérfræðinga hefur bent á að blikur kunni að vera á lofti í heimshagkerfinu vegna gervigreindarbólunnar. Springi hún gæti það orðið meira högg en í netbólan á árunum fyrir aldamót og undirmálslánabólann sem varð kveikjan að efnahagshruninu 2008.

Þannig hefur verið bent á að útlit sé fyrir að tekjur OpenAI, eiganda ChatGPT spjallmennisins, verði innan við þúsundasti hluti af þeim 1,4 billjónum dollara sem fjárfest er í fyrirtækinu um þessar mundir.

Sundar Pinchai, forstjóri Alphabet, móðurfélags Google, segir að sitt fyrirtæki geti staðið af sér storminn ef loftið sleppur úr gervigreindarblöðrunni. Það sleppi þó ekki við afleiðingarnar.

„Ég held að ekkert fyrirtæki verði ónæmt, þar á meðal okkar,“ segir hann í viðtali við breska ríkisútvarpið.

Enginn efist um netið þótt offjárfest hafi verið í því

Pichai lýsir uppgangi gervigreindar og fjárfestingar í henni sem ótrúlegu tímabili en að dæmið gangi ekki að öllu leyti upp. Iðnaðurinn hafi tilhneigingu til þess að prjóna yfir sig á stundum sem þessari.

„Við getum litið á internetið núna. Það var klárlega mikil offjárfesting en ekkert okkar efaðist um að internetið hefði mikla þýðingu. Ég býst við að sama verði uppi á teningnum með gervigreindina. Þannig að ég tel að það sé bæði skynsemi og óskynsemi að hluta til á stundum sem þessari,“ segir forstjórinn.

Tæknin sjálf er sú áhrifamesta sem mannkynið hefur þróað, að mati Pichai. Hún eigi eftir að valda samfélagslegri röskun, útrýma vissum störfum en einnig hafa ný tækifæri í för með sér.

„Það skiptir ekki máli hvort þú viljir verða kennari eða læknir. Allar þessar starfsgreinar verða til en fólkið sem stendur sig vel í þeim verður fólk sem lærir á þessi tól,“ segir forstjórinn.

Hægir á loftslagsmarkmiðum tæknirisans

Alphabet tekur fullan þátt í gervigreindarbólunni. Fyrirtækið þróar nú sérstakar tölvuflögur fyrir gervigreind sem eiga að keppa við tæknifyrirtækið Nvidia sem malar nú gull.

Gervigreindin er gríðarlega orkufrek. Alþjóðaorkumálastofnunin áætlar að um 1,5 prósent rafmagnsnotkunar í heiminum í fyrra hafi verið vegna gagnavera sem hýsa hana.

Pichai viðurkennir að loftslagsmarkmið Alphabet náist líklega ekki af þessum sökum. Það stefni engu að síður að því að ná kolefnishlutleysi árið 2030 með því að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×