Körfubolti

„Nú er tími til þess að sýna að við getum gert betur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob Sigurðarson vill sjá sína menn gera betur.
Jakob Sigurðarson vill sjá sína menn gera betur. vísir

Jakob Sigurðarson, þjálfari KR í Bónus deild karla, var augljósa svekktur með 99-89 tap sinna manna gegn erkifjendunum í Val nú í kvöld. Eftir jafnar og spennandi 35 mínútur tókst Val að gera út um leikinn á stuttum kafla í fjórða leikhluta.

„Þetta er mjög súrt og alltaf vont að tapa. Mér fannst við vera að elta meirihluta fyrri hálfleiks. Við byrjum svo seinni hálfleikinn vel og vorum með ákveðinn meðbyr með okkur þá. Við komumst yfir og hefðum þá getað stjórnað leiknum aðeins betur. Þeir eru að hitta gríðarlega vel í kvöld og hluti af því er vissulega eitthvað sem við getum lagað og gert betur. Svo er það líka svoleiðis að þegar lið sem hafa að skipa góða leikmenn komast upp á bragði þá er það auðveldar fyrir þau að finna lausnir og setja niður skot“ sagði Jakob strax að leik loknum.

Það mátti augljóslega sjá á bæði leikmönnum og stuðningsmönnum KR að liðið var ansi oft ósátt með dómara leiksins. Spurður út í það svarar Jakob strax að í hverjum körfuboltaleik eru vafaatriði sem ýmist falla með þér eða á móti þér.

„Það er alltaf í hverjum einasta leik einhver vafaatriði og dómar sem að bæði lið eru ósátt með. Það var ekki öðruvísi í kvöld. Það er langt því frá að dómgæslan hafi stýrt leiknum eða gaf þeim einhverja yfirhönd, það voru aðrir hlutir sem að við þurfum að gera betur.“

Eftir fína byrjun í Vesturbænum hefur KR nú tapað þremur leikjum í röð og er vissulega í ákveðinni brekku. Nóg er eftir af mótinu og vissulega var frammistaða liðsins alls ekki slæm í kvöld. Þjálfarinn segir verk að vinna til að snúa þessu gegni við og sýna hvað liðið geti.

„Það er klárlega ákveðið augnablik núna þar sem við þurfum að líta inn á við og verða betri sem lið og sem einstaklingar. Við erum núna að fara inn í tveggja vikna pásu með þrjú töp í röð á bakinu. Nú er það okkar að bregðast við. Þetta sýnir okkur það að við þurfum að vera betri og það sé margt sem að við þurfum að laga. Nú er tími til þess að sýna það og sýna að við getum gert betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×