Viðskipti innlent

Hvað græði ég á að leggja auka­lega inn á lánið?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Björn Berg Gunnarsson svarar lesendum Vísis aðra hverja viku. Hægt er að senda honum spurningu í spurningaforminu hér fyrir neðan.
Björn Berg Gunnarsson svarar lesendum Vísis aðra hverja viku. Hægt er að senda honum spurningu í spurningaforminu hér fyrir neðan. Vísir/Vilhelm

25 ára karlmaður spyr: „Sæll Björn. Hvað græði ég á því að leggja inn 50.000 kr. mánaðarlega auka á verðtryggt viðbótar húsnæðislán, t.d. 5 milljóna króna lán? Er þetta ekki nokkurra tuga þúsunda króna sparnaður á verðbótum miðað við núverandi vísitöluþróun? Mig langar að greiða lánið niður fyrr en á erfitt með að sjá ávinninginn miðað við sparnaðarreikninga.“

Ein mikilvægasta fjárhagslega ákvörðun sem við tökum um lífsleiðina er þegar við ákveðum hvernig við hyggjumst almennt svara spurningum sem þessum. „Á ég að greiða niður lánið eða leggja fyrir?“

Almennt hefur mér sýnst fólk hafa það mun betra fjárhagslega þegar lán eru sett í forgang, nánast sama hvað. Að greiða niður lán er skattfrjálst (sparnaður ber 22% fjármagnstekjuskatt umfram frítekjumörk), áhættulaust (það sem þú greiðir niður getur aldrei borið vexti eða verðbætur), við þurfum ekki að leggja mat á heppilegustu ávöxtunarleiðir hverju sinni og vextir eru háir. Það mætti vekja meiri athygli á þessum ljómandi fínu eiginleikum niðurgreiðslu skulda.

Borgar sig að greiða inn á þetta lán?

Lítum þó að þitt dæmi, en til þess þurfum við að fylla í nokkrar eyður. Þú nefnir 5 milljóna króna verðtryggt viðbótarlán. Vextir á slíku láni hjá Íslandsbanka eru í dag 5,65%. Verðtryggð lán bera auk þess verðbætur og þú vísar í núverandi vísitöluþróun. Slíkt er þó því miður ekki til (því framtíðin er óráðin), heldur þekkjum við aðeins þróun vísitölunnar að undanförnu og hún hjálpar okkur lítið. Við skulum, í þessu dæmi, gefa okkur að verðbólga á lánstímanum verði 3,5%, eða um 1% fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans sem og óbreytta vexti. Þú nefnir ekki lengd lánsins en segjum að 15 ár séu eftir af líftíma þess.

Að þeim forsendum gefnum ætti greiðslubyrði lánsins í dag að nema um 41.500 kr. á mánuði og spurt er hvað þú græðir á að greiða 50.000 kr. aukalega í mánuði hverjum.

Berum þetta tvennt saman:

Dæmi 1 – Ekki er greitt inn á lánið

Ef aðeins er greitt það sem óskað er eftir tekur þig 15 ár að gera lánið að fullu upp og það hefur kostað þig um 4,8 milljónir króna í kostnað (vexti og verðbætur).

Dæmi 2 – Mánaðarleg greiðsla er aukin um 50.000 kr. á mánuði

Ef við bætum 50.000 kr. við þá fjárhæð sem greidd er í dag og sú greiðsla fest úr líftíma lánsins pössum við upp á að greiða 91.500 kr. í hverjum mánuði.

Nú tekur þig tæp 6 ár að gera lánið að fullu upp, ekki 15. Þú hefur sparað þér heil 9 ár af hundleiðinlegu viðbótarláni, bankandi á dyrnar um hver mánaðarmót. Þar að auki nemur kostnaður lánsins um 1,5 milljón króna í stað 4,8 og þú hefur sparað þér 3,3 milljónir króna í vexti og verðbætur.

En hvað með sparnaðinn?

Þarna sjáum við morgunljóst kosti þess að greiða aukalega inn á lán. En þú nefndir að þú eigir erfitt með að sjá ávinninginn af því umfram að ávaxta féð á sparnaðarreikningi. Sögulega séð hafa óverðtryggðir og óbundnir sparnaðarreikningar ekki skilað nema þá sáralítilli raunávöxtun, þ.e. rétt náð að halda í við verðbólgu. Verðtryggða lánið þitt ber þó að sjálfsögðu vexti auk verðtryggingar og er því alltaf ávinningur af því, að raunvirði, að greiða lánið hraðar niður.

Við vitum ekki hvaða vexti þú færð af bankabókum á líftíma lánsins þíns, en það þyrfti afar sérstakar aðstæður til þess að þeir yrðu hærri en kostnaður lánsins. Vissulega höfum við upplifað sérstaka tíma á bankamarkaði að undanförnu og raunvextir óverðtryggðra innlána verið óvenju háir, en það er óvarlegt að áætla að slíkt vari lengi.

Hvers vegna erum við hikandi?

Spurningar á borð við þessar berast mér mjög oft, þannig þú ert langt í frá einn um að vera að velta þessu fyrir þér. Þrátt fyrir augljósa kosti þess að setja niðurgreiðslur lána í forgang virðist margir eiga afar erfitt með að hrista af sér þá tilhugsun að með því séu þeir að missa af öðrum tækifærum. Ef ekki eru notaðar reiknivélar getur auk þess verið erfitt að sjá að jafnvel minniháttar viðbótargreiðsla getur haft veruleg áhrif á lánið okkar. Ég svaraði einmitt spurningu fertugrar konu í nóvember sem spurði hvers vegna lánið hennar hafi ekki lækkað.

Að miklu leyti snýst þetta um viðhorf til fjármuna, ávöxtunar og áhættu. Fólk getur til dæmis átt erfitt með að selja hlutabréf til að greiða niður neyslulán en fundist fráleitt að taka neyslulán til að kaupa hlutabréf. Hér er þó verið að tala um sama hlutinn, en frá tveimur ólíkum sjónarhornum. Það skiptir máli að tileinka sér heilbrigð, einföld og skýr viðhorf til sinna persónulegu fjármuna, ekki síst skulda. Þá verður svo auðvelt að taka rétta ákvörðun.

Við þurfum ekki að flækja þetta. Höldum okkur frá lánum, setjum niðurgreiðslur þeirra í forgang og treystum því að það bæti fjárhag okkar til lengri tíma.


Tengdar fréttir

Hvernig bý ég mig undir barn­eignir?

27 ára kona spyr: „Hvernig er best að haga fjárhag í aðdraganda barnseigna? Ég á von á mínu fyrsta barni og vil bæði huga að því hvernig ég fjárfesti í framtíð barnsins t.d. á reikningi sem og hvað ég get gert sem verðandi foreldri sem undirbýr stækkandi fjölskyldu fyrir fjárhagslegar áskoranir sem fylgja barni.“

Hver er munurinn á sér­eign og sam­tryggingu?

38 ára kona spyr: „Mér stendur til boða að safna meiri séreign þegar ég greiði í lífeyrissjóð, en ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessu. Hver er munurinn á séreign og samtryggingu?“

Steypti ég mér í al­gjöra glötun með lántökunni fyrir þremur árum?

38 ára karl spyr: „Sæll. Kannski vegna þess að þú varst ekki byrjaður að skrifa þessa pistla fyrir 20 árum hef ég alltaf verið einstaklega „óheppinn“ í fjármálum og eignaðist ég því mína fyrstu íbúð fyrir tæpum þremur árum. Þá var bara verðtryggt í boði. Ef ég tek mark á umræðunni, sem ég geri lítið, þá er ég búinn að steypa mér í algjöra glötun. Er það svo eða get ég tekið einhver skynsamleg skref? Á ég að endurfjármagna umsvifalaust? Hvað þarf ég að hugsa um þegar ég geri það? Hjálp!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×