Fótbolti

Beint frá Blikum til Boston í banda­rísku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sammy Smith fer frá Breiðabliki til Boston Legacy-liðsins í NWSL-deildinni.
Sammy Smith fer frá Breiðabliki til Boston Legacy-liðsins í NWSL-deildinni. Vísir/Anton Brink

Sammy Smith hefur fundið sér nýtt lið eftir tvö frábær ár á Íslandi en knattspyrnukonan snjalla samdi við Boston Legacy í bandarísku NWSL-deildinni.

Smith hefur hjálpað Breiðabliki að vinna Íslandsmeistaratitla tvö ár í röð auk þess að FHL fór upp í Bestu-deildina með hana innanborðs. Smith vann í raun þrjár deildir á tveimur árum á Íslandi.

Smith var allt í öllu í Blikaliðinu á þessum tveimur tímabilum en hún var með 21 mark og 13 stoðsendingar í aðeins 30 leikjum.

Smith er að snúa aftur á heimaslóðir en hún var í Boston College á sínum tíma.

„Að spila fyrir íþróttalið í Boston segir allt sem segja þarf,“ sagði Smith í fréttatilkynningu frá Boston Legacy.

„Það er draumur að rætast að geta spilað fyrir framan vini mína og fjölskyldu eftir að hafa búið erlendis í nokkur ár. Ég er svo spennt að vera hluti af einhverju svona sérstöku, sérstaklega á fyrsta ári félagsins, og að spila fyrir Boston. Þetta er óraunverulegt,“ sagði Smith.

Smith hóf atvinnumannaferil sinn árið 2024 með FHL í annarri deild á Íslandi, vann deildarmeistaratitilinn og skoraði 15 mörk í 14 leikjum áður en hún fór á láni til Breiðabliks í efstu deild út tímabilið. Þar náði hún þeim sjaldgæfa áfanga að vinna deildarmeistaratitla í báðum deildum á sama ári eftir að hafa skorað níu mörk í sjö leikjum með efstudeildarfélaginu.

Hún skoraði síðan 12 mörk í 24 leikjum á næsta tímabili og hjálpaði Breiðabliki að verja meistaratitilinn.

„Sú reynsla hefur hjálpað til við að móta leik hennar og hún hefur verið lykilmaður fyrir Breiðablik á Íslandi, skorað jafnt og þétt og keppt um titla,“ sagði Domè Guasch, framkvæmdastjóri Boston Legacy, í fréttatilkynningu.

„Hún er fjölhæfur framherji með eðlislægt markanef og rætur hennar í Boston gefa henni þann kjark og þá einlægni sem falla vel að þeirri menningu sem við erum að byggja upp. Við erum spennt að bjóða hana velkomna heim og sjá hana hafa áhrif hér í Boston,“ sagði Guasch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×