Innlent

Rúmur helmingur bjart­sýnn fyrir 2026

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Álíka margir eru bjartsýnir á næsta ár og voru á árið 2025. 
Álíka margir eru bjartsýnir á næsta ár og voru á árið 2025.  Vísir/Vilhelm

Rúmlega 54 prósent eru bjartsýn fyrir komandi ári samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Tæplega þriðjungur segist í meðallagi bjartsýnn fyrir 2026 en tæp fjórtán prósent segjast svartsýn fyrir árinu. 

Niðurstöðurnar eru svipaðar og í fyrra þegar sama spurning var lögð fyrir þátttakendur Maskínukönnunar í desember. Þá sögðust 55 prósent bjartsýn fyrir árinu 2025 en færri sögðust svartsýnir fyrir því en nú, eða slétt tíu prósent. 

Þátttakendur voru spurðir hversu vel eða illa þeim þætti ríkisstjórnarflokkunum hafa tekist að koma málum sínum til framkvæmda í núverandi stjórnarsamstarfi. Samfylkingunni tókst að mati flestra vel til, eða tæpum 42 prósentum. Rúm 36 prósent töldu Viðreisn hafa tekist vel að koma málum sínum til framkvæmda en 29 prósent töldu Flokk fólksins hafa tekist það vel.

Tæplega þriðjungur kjósenda taldi flokkunum hafa í meðallagi tekist að koma málum sínum til framkvæmda. 

Rúm 28 prósent telja Samfylkingunni hafa tekist það illa og 31 prósent telja Viðreisn hafa tekist illa til. Þá telja 44 prósent þátttakenda Flokki fólksins hafa tekist illa að koma málum sínum til framkvæmda. 

Niðurstöður sömu könnunar síðan í desember 2023 fylgja til samanburðar.Maskína

Könnunin fór fram dagana 11. til 17. desember 2025 og voru svarendur 2.032 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×