Erlent

Tóku einnig skuggaskip í Karíba­hafinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr myndbandi af áhlaupinu um borð í olíuflutningaskipið Sophia á Karíbahafinu í dag.
Skjáskot úr myndbandi af áhlaupinu um borð í olíuflutningaskipið Sophia á Karíbahafinu í dag.

Bandarískir hermenn gerðu í dag áhlaup um borð í olíuflutningskip sem bendlað hefur verið Venesúela á Karíbahafinu. Bandaríkjamenn tóku því yfir tvö slík skip sem sögð eru hafa verið notuð til að brjóta á viðskiptaþvingunum.

Yfirstjórn herafla Bandaríkjanna í Suður-Ameríku birti í dag myndband af því þegar sérsveitarmenn gerðu áhlaup um borð í olíuflutningaskipið Sophia á Karíbahafinu. Tóku þeir yfir stjórn á skipinu, eins og Bandaríkjamenn hafa ítrekað gert á undanförnum dögum og vikum.

Myndbandið var birt eftir að Bandaríkjamenn tóku yfir stjórn skipsins Marinera en kallaðist áður Bella 1 suður af Íslandi.

Það skip hafði verið beitt refsiaðgerðum vegna þess að það mun hafa verið notað árið 2024 til að flytja farm fyrir Hezbollah hryðjuverkasamtökin í Líbanon og yfirvöld í Íran.

Þegar kemur að skipinu Sophia liggur enn ekki fyrir á hvaða grunni það var stöðvað að öðru leyti en yfirvöld í Bandaríkjunum segja það hafa verið notað til ólöglegrar starfsemi.

New York Times hefur eftir heimildarmanni að skipinu hafi verið siglt undir fána Kamerún, þó það hafi ekki verið skráð þar.

Bandaríkjamenn hafa sett Venesúela í herkví en fjölmörgum skipum sem beitt hafa verið refsiaðgerðum hefur verið siglt frá Venesúela á undanförnum dögum og vikum.

Kristi Noem, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, deildi einnig myndbandi af áhlaupinu um borð í Sophia í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×