Lífið

Minnast Magnúsar Ei­ríks­sonar: „Góða ferð, elsku vinur“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þau minntust Magnúsar Eiríkssonar.
Þau minntust Magnúsar Eiríkssonar. Samsett

Þjóðargersemin Magnús Eiríksson, texta- og lagahöfundur, er látinn. Fjöldi Íslendinga minnist Magnúsar og þakka honum fyrir framlag hans til íslenskrar tónlistar.

Magnús var þjóðþekktur laga- og textahöfundur og samdi ógrynni laga, þar á meðal „Ég er á leiðinni“, „Þorparann“, „Ó þú“ og „Einhvers staðar einhvern tímann aftur“. Tónlistarferill hans má rekja aftur til 1961 og stofnaði hann fyrstu blússveit landsins, Blúskompaníið árið 1967. 

Pálmi Gunnarsson og Magnús voru saman í hljómsveitunum Mannakornum og Brunaliðinu. Pálmi birti mynd af félaga sínum og minntist hans.

„Frá stjörnu ertu kominn, til stjarnanna ferðu á ný. Þessi ljóðlína Magnúsar vinar míns er mér ofarlega í huga í dag. Góða ferð til stjarnanna elsku vinur og takk fyrir allt,“ skrifar Pálmi Gunnarsson á Facebook.

Tónlistarmaðurinn KK var fyrst starfsmaður í hljóðfæraverslun Magnúsar sem bar heitið Rín en seinna meir unnu þeir mikið saman. KK minnist Magnúsar einnig með færslu þar sem hann þakkar vini sínum fyrir samferðina.

„Góða ferð elsku vinur.“

Bragi Valdimar Skúlason, meðlimur í hljómsveitinni Baggalútur, þakkar Magnúsi fyrir öll lögin og textana sem hann gaf þjóðinni.

„Allir hæfileikarnir, færnin, spilamennskan. Næmni fyrir melódíum, auga fyrir smáatriðum. Innsæið í þjóðarsálina. Allur húmorinn. Allur blúsinn - og öll fegurðin. Innblásturinn sem hann gaf okkur hinum. Hann lagði okkur línurnar. Sýndi að það er vel hægt að semja ódauðleg lög með góðum textum - á íslensku. Risi í íslenskri tónlistarsögu. Ljúfur risi. Magnús Eiríksson - þú varst sannarlega ómissandi. Farðu í friði,“ skrifar Bragi Valdimar á Facebook.

Sögur rifjaðar upp

Ólafur Páll Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, segir að allir eigi sögu að segja af Magnúsi. Hann minnist þess þegar hann hlustaði á öll lögin í útvarpinu sem barn og fyrstu plötunnar sem hann fékk í hendurnar sem hafði að geyma lög Magnúsar.

„Maggi fékk alla fermingarpeninga mína á sínum tíma - ég fór í RÍN og keypti Morris Sratocaster og Boss overdrive - mér fannst það góð skipti. Síðan kynnumst við aðeins og hann og hann er eiginlega músíkrisinn sem ég hef aldrei heyrt neinn hallmæla á nokkurn hátt. Það tala allir vel um Magga og hafa alltaf gert,“ segir Ólafur Páll.

„Við erum fátækari í dag en í gær en lögin hans munu lifa okkur öll sem lifum í dag. Takk fyrir allt þitt Magnús Eiríksson.“

Jakob Frímann, meðlimur í Stuðmönnum, segir að stórmenni hafi kvatt þjóðina. Hann, líkt og án efa margir aðrir, horfði síðan á upptöku af fimmtíu ára afmælistónleikum Mannakorna sem var á dagskrá Rúv í gærkvöldi.

„Fegurðin og örlætið takmarkaðist þó ekki við framlag hans til tón- og textasmíða. Hann reyndist einstaklega þolinmóður og hvetjandi því fjölmarga forvitna unga fólki sem áratugum saman lagði leið sína í hljóðfæraverslunina Rín, að máta sig við hin ýmsu ólíku hljóðfæri og tækjabúnað. Þá gaf hann ríkulega af sér á sviði félagsmála og réttindabaráttu tónlistarfólks, bæði sem formaður FTT og STEFs, og vann þar afar mikilvæg störf sem seint verða fullþökkuð,“ skrifar Jakob.

Tónlistarkonan og aðgerðasinninn Magga Stína þakkar Magnúsi fyrir stórkostleg tónlistarverk og fyrir að deila þeim með þjóðinni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, þakkar Magnúsi fyrir öll lögin og textana. Hún bætti sérstaklega við færsluna laginu Einhvers staðar einhvern tímann aftur.

„Þetta er lagið sem hljómaði kvölds og morgna í Skólastræti 5b þegar við Hjölli vorum að draga okkur saman í ársbyrjun 1982 og vekur alltaf upp jafn fallegar og ljúfar minningar,“ skrifar Ingibjörg og segir Magnús kært kvaddann.

Tónlistarmaðurinn Karl Örvarsson minnist einnig Magnúsar með færslu á Facebook.

„Ég hef samið lög .. en .. þegar ég heyri lög eins og Ég er á leiðinni - Í gegnum tíðina - Draumaprinsinn - Sölvi Helgason - Ó þú - Þorparinn ... listinn er ótæmandi ... þá verður manni eiginlega orða/laga vant,“ segir Karl.

Hann segist syrgja Magnús með lotningu og erfitt sé að gera betur í lagasmíðum en hann hafi gert. Að syngja lög Magnúsar sé eins og að syngja þjóðsönginn þar sem allir taka undir, ungir sem aldnir.

„Magnús Eiríksson var einn af helstu höfundum hljóðrásar ævi minnar - nánast hver einasta perla í tónum eða texta úr hans gnægtabrunni kveikir góðar minningar og sterkar tilfinninga,“ skrifar Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Magnús var sá fyrsti til að hljóta þakkarorðu íslenskrar tónlistar á Degi íslenskrar tónlistar 2024 á sérstökum hátíðartónleikum honum til heiðurs í Eldborgarsal í Hörpu.

Björgvin Halldórsson segir Magnús hafa verið meðal afkastamestu tónlistarmanna Íslendinga um áratugaskeið og einn þann áhrifamesta í sögu íslenskrar popp- og blústónlistar.

„Eftir hann liggja mörg flottustu og vinsælustu lög samtímans. Hann hefur nú horfið af sviðinu en skilur eftir sig mörg af vinsælustu lögum Íslands. Innilegar samúðarkveðjur sendum við fjölskyldu Magga sem og vinum og vandamönnum,“ skrifar Björgvin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.