Erlent

Mengunar­reglur taka ekki lengur til­lit til dauðs­falla og heilsu

Kjartan Kjartansson skrifar
Reykháfar kolaorkuvers í Bandaríkjunum. Ríkisstjórn Donalds Trump vill ekki að tekð sé tillit til mannslífa og heilsu þegar reglur um takmarkanir á loftmengun eru settar.
Reykháfar kolaorkuvers í Bandaríkjunum. Ríkisstjórn Donalds Trump vill ekki að tekð sé tillit til mannslífa og heilsu þegar reglur um takmarkanir á loftmengun eru settar. AP/Charlie Riedel

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta ætlar að hætta að taka tillit til dauðsfalla og áhrifa á heilsu fólks þegar hún semur reglur um loftmengun. Aðeins verður litið til þess hvað það kostar fyrirtæki að fylgja reglunum.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna tilkynnti um breytinguna á mánudag. Hún ætlar ekki lengur að reikna út hversu mörgum dauðsföllum takmarkanir á nituroxíð- og ósónmengun bjarga eða hversu mikið þær spara í heilbrigðiskerfinu.

Mengunin hefur verið tengdar við alvarlega hjarta- og æðasjúkdóma í mönnum.

Breytingin tengist andstöðu núverandi ríkisstjórnar við reglur um svifryksmengun sem voru settar í tíð ríkisstjórnar Joe Biden. Umhverfisstofnunin reiknaði þá út að þær reglur ættu eftir að koma í veg fyrir um 4.500 mannslát og 290.000 glataða vinnudaga fyrir árið 2032.

Núverandi ríkisstjórn heldur því fram að þær tölur séu misvísandi og ætlar því að hætta að reikna með jákvæðum áhrifum reglnanna um takmörkum svifryksmengunar á líf og heilsu fólks. Aðeins verði reiknað með kostnaðinum fyrir iðnað og fyrirtæki.

Segjast enn viðurkenna jákvæð áhrif reglna

Lýðheilsu- og umhverfissérfræðingar eru furðu lostnir yfir ákvörðuninni, að sögn AP-fréttastofnunar. Með henni þvoi Umhverfisstofnunin hendur sínar af kjarnahlutverki sínu á hættulegan hátt.

Lee Zeldin, forstjóri bandarísku umhverfisstofnunarinnar. Eins og aðrir repúblikanar þrætir Zeldin fyrir viðurkennd vísindi í loftslags- og umhverfismálum.AP/Jenny Kane

„Umboð Umhverfisstofnunarinnar er að verja lýðheilsu, ekki hunsa vísindi til þess að útrýma reglum um loftgæði sem bjarga mannslífum,“ segir John Walke, lögmaður Natural Resources Defense Council, félagasamtaka sem láta sig umhverfis- og lýðheilsumál varða.

Umhverfisstofnunin heldur því fram að ákvörðunin um að falla frá ábatagreiningu á reglunum þýði ekki að hún taki ekki tillit til mannslífa. Hún viðurkenni enn að það hafi kosti í för með sér að draga úr svifryksmengun.

„Fordæmalaus“ ákvörðun sem hafi „hræðileg“ áhrif

Á sama tíma og hún tilkynnti um að kostnaðar- og ábatagreining við loftmengunarreglur yrði héðan í frá aðeins kostnaðargreining veikti Umhverfisstofnunin reglur um losun fíns svifryks frá gasorkuverum, í sumum tilfellum til næstu tveggja áratuga.

„Ef Umhverfisstofnunin heldur þessari áætlun til streitu hefur það hræðileg áhrif á umhverfisreglur,“ segir W. Kip Viscusi, prófessor við lögfræðideild Vanderbilt-háskóla, sem tók þátt í að smíða aðferð til þess að leggja mat á kostnað við heilsufarsáhrif mengunar fyrir fjórum áratugum.

Ákvörðunin muni grafa undan rökum fyrir öllum reglum sem eiga að vernda heilsu, öryggi og umhverfi. Viscusi telur það fordæmislaust að ríkisstjórnin vilji ekki gefa mannslífum sem reglur bjarga neitt vægi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×