Innlent

„Blasir við að ís­lenskt launa­fólk var svikið“

Árni Sæberg skrifar
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi.
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi. Vísir/Vilhelm

Formaður Starfsgreinasambandsins segir blasa við að launafólk hafi verið svikið með gjaldskrár- og verðlagshækkunum, þvert á gefin loforð í síðustu kjarasamningsviðræðum. Veitur hafa hækkað fastagjald hitaveitu um nærri fimmtíu prósent á einu ári.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson í færslu á Facebook en tilefnið er frétt Morgunblaðsins um gjaldskrárhækkun Veitna. Þar kemur fram að Veitur hafi hækkað fastagjald hitaveitu um 48,9 prósent á einu ári, notkunargjald hitaveitu um 9,6 prósent og fastagjald rafmagns um 9,9 prósent.

„Þetta er skýrt dæmi um gjaldagleði ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu, þar sem byrðunum er velt yfir á almenning og það á sama tíma og nánast allur hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur er tekinn út í formi arðgreiðslna,“ segir Vilhjálmur.

Gjaldagleði sem kyndi undir verðbólgu

Þá segir hann að um leið blasi við að íslenskt launafólk hafi verið svikið, af því við gerð kjarasamninga árið 2024 hafi ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í opinberri eigu sem og verslun og þjónusta lofað að halda aftur af gjaldskrár- og verðlagshækkunum. 

„Almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum eru 3,5 prósent, á meðan gjöld á grunnþjónustu hækka um tugi prósenta. Þetta er ekki jafnvægi, þetta er ekki ábyrg hagstjórn, heldur gjaldagleði sem kyndir undir verðbólgu og bitnar beint á launafólki og heimilum landsins.“

Skýrt uppsagnarákvæði kjarasamninga

Vilhjálmur minnir á að í næstu endurskoðun kjarasamninga sé skýrt ákvæði um að tólf mánaða verðbólga megi ekki vera yfir 4,7 prósentum, annars opnist heimild til að segja samningum upp næsta haust. 

„Því miður er margt sem bendir til þess að verðbólgan geti farið yfir þetta mark, ekki síst vegna gjaldagleði ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu. Ef það gerist verður ekki launafólk sem ber ábyrgðina, heldur þeir sem sviku loforð sín um að halda aftur af gjaldskrár- og verðlagshækkunum og kusu þess í stað að velta kostnaðinum yfir á almenning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×