Erlent

Friðar­viðræður hafnar í Katar og Netanyahu heldur til Was­hington

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Benjamin Netanyahu fundar með Donald Trump á morgun.
Benjamin Netanyahu fundar með Donald Trump á morgun. Getty

Fulltrúar Ísraels og Hamas staddir í Doha í Katar þar sem viðræður um vopnahlé á Gasa standa yfir. Benjamín Netanyahu forsætisráðherra er á leið til Washington þar sem hann fer á fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta, en þar stendur til að ræða vopnahléstillögur.

Netanyahu segir að fundurinn með Trump muni vonandi hjálpa til með að binda enda á stríðið við Hamas, og að ná samkomulagi um að eftirlifandi gíslum verði skilað.

Hann sagði að fulltrúar Ísraels hefðu fengið skýrar leiðbeiningar um það hvaða skilmálar stæðu til boða fyrir mögulegan samning við Hamas.

Fulltrúar Hamas sögðust í gær reiðubúnir að ræða um þá skilmála sem eru fyrir hendi og brugðust á nokkuð jákvæðum nótum við fyrstu tillögu Ísraelsmanna, þótt enn sé langt í land.

Samkvæmt BBC halda Hamas samtökin fast í þá kröfu að vopnahlé muni fela í sér algjört brotthvarf ísraelskra hermanna frá Gasa svæðinu.

Ísraelsmenn hafa ekki viljað gangast við því.

Samkvæmt BBC eru kröfur Ísraela þríþættar. Í fyrsta lagi að öllum gíslum verði skilað, lifandi og dauðum, í öðru lagi eyðilegging allra hernaðargagna Hamas, og í þriðja lagi að tryggt verði að Gasa veðri ekki lengur ógn við Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×