Erlent

Er Trump að gefast upp á Pútín?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump virðist vera að komast á þá skoðun að það sé lítil innistæða fyrir fagurgala Pútín.
Trump virðist vera að komast á þá skoðun að það sé lítil innistæða fyrir fagurgala Pútín. Getty

Vladimir Pútín Rússlandsforseti virðist vera farinn að reyna á þolinmæði Donald Trump Bandaríkjaforseta en síðarnefndi sagði í gær að Pútín væri fullur af „kjaftæði“.

„Hann er alltaf voða indæll en svo reynist engin innistæða fyrir því,“ sagði Trump. Forsetinn sagðist vera að íhuga frekari refsiaðgerðir gegn Rússum og ítrekaði að Bandaríkjamenn hygðust senda meira af vopnum til Úkraínu.

Trump sagði Pútín hafa valdið sér vonbrigðum.

Úkraínumenn eru sjálfir sagðir hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með fyrirhugað innihald nýrra vopnasendinga en Trump sagðist í gær myndu sjá þeim fyrir tíu Patriot eldflaugum. Þeim hafði áður verið lofað 30 slíkum.

Embættismenn í Úkraínu sögðust engu að síður þakklátir fyrir þá ákvörðun Bandaríkjaforseta að fresta ekki öllum vopnasendingum eins og áður hafði verið tilkynnt. Úkraínska varnarmálaráðuneytið segist nú bíða eftir staðfestingu á því hvaða vopn þeir myndu fá en fyrirsjáanleiki væri afar mikilvægur hvað þetta varðaði.

Rússar gerðu umfangsmiklar árásir á Kænugarð í síðustu viku, eftir símtal Pútín og Trump en Trump átti í kjölfarið samtal við Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta á föstudag, sem síðarnefndi sagði eitt besta samtal sem þeir hefðu átt.

Þrátt fyrir brösuleg samskipti og forkastanlegar móttökur sem Selenskí fékk í Hvíta húsinu fyrr á árinu hefur Selenskí farið fögrum orðum um framgöngu Trump í að miðla málum. 

Úkraínumenn hafa samþykkt tillögur Bandaríkjanna um 30 daga vopnahlé en Rússar haldið fast í ýtrustu kröfur sínar um landvinninga í Úkraínu og afturhvarf Atlantshafsbandalagsins frá bæjardyrum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×