Sport

Viður­kenndi sök og má ekki keppa í CrossFit í fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
CrossFit kappinn Jack Monaghan tók slæma ákvörðun og má ekki keppa aftur í CrossFit fyrr en hann er orðin þrítugur.
CrossFit kappinn Jack Monaghan tók slæma ákvörðun og má ekki keppa aftur í CrossFit fyrr en hann er orðin þrítugur. @jack_mona99

CrossFit kappinn Jack Monaghan er hættur við að áfrýja banni sínu og ákvað frekar að viðurkenna sök og taka sinni refsingu.

Monaghan féll á lyfjaprófi á undanúrslitamóti fyrir heimsleikana og CrossFit hefur sett hann í bann.

Prófið var tekið á Torian Pro mótinu í Ástralíu þar sem Monaghan endaði í sjötta sæti. Það dugði þó ekki til að tryggja honum sæti á heimsleikunum því aðeins tvö sæti voru í boði.

Þegar fréttist af því að Monaghan hefði fallið á lyfjaprófi þá tilkynnti hann strax að hann ætlaði að áfrýja dómnum og hreinsa mannorð sitt.

Sterar höfðu fundist í sýni hans.

Nú tveimur vikum síðar hefur hann ákveðið að hætta þeirri baráttu. Monaghan er þar með kominn í fjögurra ára bann frá CrossFit íþróttinni.

Monaghan útskýrði stöðu sína á samfélagsmiðlum og sagði að andlegar og líkamlegar kröfur að keppa á hæsta stigi hafi verið of miklar fyrir hann.

„Þessi pressa átti þátt í þessari slæmu ákvörðunartöku minni. Það er samt enginn annar en ég sem ber ábyrgðina,“ sagði Jack Monaghan.

Það fylgdi líka sögunni að hann varð fyrir því að fótbrotna í aðdraganda mótsins sem gerði það enn erfiðara fyrir hann að koma sér í sitt besta form. Hann segir það þó ekki vera neina afsökun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×