Viðskipti innlent

Sjö Airbus-þotur verða komnar í flotann í vetur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrsta Airbus-þota Icelandair, Esja, kom til landsins í byrjun desember. Hér er verið að draga hana inn í flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli þar sem komu hennar var fagnað.
Fyrsta Airbus-þota Icelandair, Esja, kom til landsins í byrjun desember. Hér er verið að draga hana inn í flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli þar sem komu hennar var fagnað. KMU

Þrjár nýjar Airbus-þotur bætast í flota Icelandair í vetur. Þær koma til viðbótar þeim fjórum þotum sem félagið er þegar búið að fá afhentar frá evrópska flugvélaframleiðandum. Þar með verða alls sjö Airbus A321LR-þotur komnar í rekstur félagsins fyrir næsta vor.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir framleiðsluferli flugvélanna þriggja, sem væntanlegar eru, þegar hafið og þær fari í samsetningu í haust í verksmiðjunum í Hamborg.

„Við reiknum með að taka þær í rekstur, hverja af annarri, öðru hvoru megin við áramótin,“ segir Guðni. Tvær vélanna eiga að koma á síðasta fjórðungi þessa árs og sú þriðja á fyrsta fjórðungi þess næsta.

Hér má sjá kafla úr þættinum Flugþjóðin um Airbus-kaupin:

Icelandair skoðar jafnframt að fá fleiri A321LR-þotur áður en fyrstu XLR-vélarnar eiga að koma árið 2029. LR stendur fyrir „long range“ og XLR fyrir „extra long range“ en þær eru með lengsta flugdrægi mjórra farþegaflugvéla í heiminum.

„Airbus A321LR vélarnar eru að koma mjög vel út í rekstri hjá okkur og félagið er að skoða möguleika á að bæta við fleiri slíkum vélum,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Tvö ár eru frá því Icelandair skrifaði undir samning um kaup á þrettán Airbus A321XLR-þotum og um kauprétt á tólf slíkum þotum til viðbótar. Jafnframt gerði félagið leigusamning A321LR-vélarnar, sem allar koma nýsmíðaðar.

Airbus-þota Icelandair númer tvö. Hún fékk heitið Lómagnúpur og skrásetningarstafina TF-IAB.Icelandair

Fyrstu Airbus-þotuna, TF-IAA, fékk Icelandair í byrjun desember síðastliðinn og hlaut hún nafnið Esja. Önnur þotan, TF-IAB, kom í lok febrúar og hlaut nafnið Lómagnúpur. Sú þriðja, TF-IAC, Dynjandi, var afhent í apríl. Fjórða þotan, TF-IAD, var afhent í maí og hlaut nafnið Ásbyrgi.

Samhliða fjölgun Airbus-véla er þessa dagana verið að setja upp nýjan Airbus-flughermi í þjálfunarsetri Icelandair í höfuðstöðvunum á Flugvöllum í Hafnarfirði. Að sögn Guðna er búist við að hann verði tekinn í notkun í kringum næstu mánaðamót; í lok ágúst eða í byrjun september.

Icelandair er enn með tíu Boeing 757-þotur í rekstri en Airbus-þoturnar leysa þær af hólmi jafnt og þétt.

„Við höfum verið að miða við að síðustu 757-vélarnar fari úr rekstri í leiðarkerfinu á síðari hluta árs 2027, það hefur ekki breyst,“ segir Guðni.

Hér má sjá kafla úr þætti Flugþjóðarinnar um 757-þotuna:


Tengdar fréttir

Icelandair hættir rekstri stærstu flugvéla sinna

Ráðamenn Icelandair hafa tekið þá ákvörðun að hætta breiðþoturekstri og nota eingöngu mjóþotur í millilandafluginu. Þá er framundan að ákveða hvort aðeins verði reknar Airbus-þotur eða hvort Boeing Max-þoturnar verði áfram í flotanum.

Airbus var lengi búið að ganga á eftir Icelandair

Tímamót urðu í sögu Icelandair þegar félagið fékk afhenta sína fyrstu Airbus-þotu undir lok síðasta árs. Aldrei fyrr hafði það gerst í sögu þessa stærsta flugfélags Íslendinga að það keypti nýja farþegaþotu frá öðrum framleiðanda en Boeing.

Arftaki 757-þotunnar ekki í boði frá Boeing

Boeing-verksmiðjurnar hættu smíði 757-þotunnar árið 2004, þeirrar flugvélartegundar sem byggði upp Icelandair. Boeing hefur til þessa ekki getað boðið flugfélögum upp á annan valkost sem getur algerlega komið í staðinn fyrir 757-vélina.

Fagna þotunni sem markar tímamót í sögu Icelandair

Icelandair-menn fögnuðu tímamótum með komu fyrstu Airbus-þotu félagsins til landsins í dag og um leið því að fá farkost sem eyðir þrjátíu prósentum minna eldsneyti á hvert sæti en þotan sem hún leysir af hólmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×