Innlent

Tuttugu milljónir í bankanum og kona í gæslu­varð­haldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi glæpsins í Þverholti í Mosfellsbæ.
Frá vettvangi glæpsins í Þverholti í Mosfellsbæ. Vísir/Anton Brink

Um tuttugu milljónir króna voru í hraðbanka sem stolið var í Mosfellsbæ í vikunni. Kona á fertugsaldri hefur verið úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald til þriðjudags grunuð um aðild að þjófnaðinum.

Fréttastofa RÚV fjallaði um málið í hádeginu en Vísir hefur fengið staðfest að um tuttugu milljónir króna hafi verið í hraðbankanum. Samkvæmt heimildum Vísis var staðsetningarbúnaður í hraðbankanum. Þjófarnir notuðu gröfu og komu aftan að bankanum með slíkum látum að búnaðurinn skemmdist. Hann hefur því ekki nýst lögreglu við leita að bankanum sem enn er ófundinn.

Samkvæmt heimildum RÚV fór lögregla fram á gæsluvarðhald yfir konu í hádeginu í dag í tengslum við rannsókn sína á málinu. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á öðrum tímanum í dag á kröfuna ólíkt því sem var í gær. Þá fór lögregla fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni á fimmtugsaldri en dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði kröfunni. Lögreglan kærði úrskurðinn til Landsréttar og er úrskurðar að vænta þaðan í dag.

Þá segir RÚV að annar karlmaður hafi verið handtekinn í vikunni en sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Lögregla kallaði í dag, annan daginn í röð, eftir aðstoð frá almenningi í leit sinni að myndefni í Mosfellsbæ og við Hafravatn þaðan sem gröfunni var stolið. Er horft til tímabilsins 3:30 til 6:00 aðfaranótt þriðjudags.


Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×