Innlent

Líkams­á­rás á gisti­heimili

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Sjö gistu fangageymslur í morgun.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Sjö gistu fangageymslur í morgun. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur útköllum í nótt þar sem tilkynnt var um líkamsárás. Önnur átti sér stað á gistiheimili í póstnúmerinu 105 en þar var einn handtekinn og annar fluttur á slysadeild.

Hin líkamsárásin átti sér stað í póstnúmerinu 111, þar sem tveir réðust á einn. Báðir flúðu af vettvangi en sá sem varð fyrir árásinni hlaut minniháttar meiðsl.

Lögregla sinnti ýmsum öðrum verkefnum í nótt og handtók meðal annars mann og vistaði í fangageymslu sökum ástands, eftir að viðkomandi hafði verið til ama í fjölbýlishúsi og haldið vöku fyrir nágrönnunum.

Þá var tilkynnt um nokkur minniháttar umferðaróhöpp en í einu tilviki var einn fluttur á slysadeild með minniháttar meiðsl.

Lögregla sinnti einnig útkalli vegna þjófnaðar í verslun í póstnúmerinu 104 og rannsakar rúðubrot í fyrirtæki í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×