Innlent

Líkams­á­rás í Hafnar­firði og maður með sveðju í Kópa­vogi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Allir fangaklefar voru fullir eftir nóttina.
Allir fangaklefar voru fullir eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

Einn var handtekinn vegna líkamsárásar í Hafnarfirði og tilkynnt um mann með sveðju utandyra í Kópavogi. Tveir voru handteknir sem óku undir áhrifum á lögreglubíl og reyndu svo að skipta um sæti.

Mikill erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Alls voru skráð frá klukkan 17 til fimm í nótt 156 mál voru skráð hjá lögreglu. Allir fangaklefar eru fullir samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Í dagbókinni kemur fram að lögregla hafði afskipti af mörgum aðilum vegna ölvunar, sérstaklega á stöð 1 sem er á Hverfisgötu og sinnir miðborg og hverfum í kring. Í dagbók kemur fram að lögregla hafi sem dæmi stöðvað „peruölvaðan ökumann“ í hverfi 108 sem ók bíl sínum á annan bíl. Ökumaðurinn reyndist svo án ökuréttinda og var vistaður í fangaklefa,

Þá var einn handtekinn í miðborginni vegna þjófnaðar en reyndist síðar vera eftirlýstur og var einnig vistaður í fangaklefa. Þá voru tveir handteknir í miðborginni vegna húsbrots.

Lögregla hafði einnig afskipti af ungmenni í hverfi 104 sem var til töluverðra vandræða samkvæmt dagbók. Það var í annarlegu ástandi, gaf ekki upp rétt nafn og réðst að lögreglumönnum og hrækti á þá. Í dagbók kemur fram að málið hafi verið afgreitt með aðkomu foreldra.

Þá voru tveir handteknir sem óku á lögreglubíl og reyndu svo að skipta um sæti til að villa um fyrir lögreglunni. Báðir voru undir áhrifum og voru vistaðir í fangaklefa.

Þá var nokkur fjöldi vistaður í fangaklefa vegna ölvunar.

Á öðrum lögreglustöðvum var einnig töluverður erill. Í Hafnarfirði var einn handtekinn fyrir líkamsárás og tilkynnt um innbrot í verslun. Í Kópavogi var tilkynnt um mann sem var vopnaður sveðju. Í dagbók kemur fram að hann fannst ekki við leit. Þá var einn handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna eignarspjalla í Grafarvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×