Viðskipti innlent

Bændaferðir færa sig í skemmti­ferða­siglingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni eru Sævar Skaptason, stjórnarformaður Ferðaþjónustu bænda hf., Jóhann Jónsson og Sigurjón Þór Hafsteinsson fráfarandi eigendur Súlu Travel og Berglind Viktorsdóttir framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.
Á myndinni eru Sævar Skaptason, stjórnarformaður Ferðaþjónustu bænda hf., Jóhann Jónsson og Sigurjón Þór Hafsteinsson fráfarandi eigendur Súlu Travel og Berglind Viktorsdóttir framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.

Ferðaþjónusta bænda hf. einnig þekkt undir vörumerkjunum Bændaferðir og Hey Iceland, hefur nýverið fest kaup á öllu hlutafé Súlu Travel sem sérhæfir sig í skemmtiferðasiglingum á vegum Norwegian Cruise Line (NCL). Norwegian Cruise Line siglir um allan heim.

„Bæði fyrirtækin eru rótgróin og leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu, gæði og fagmennsku. Kaupin á Súlu Travel mun verða mikil og góð viðbót við fjölda glæsilegra ferða Bændaferða,“ segir Sævar Skaptason, stjórnarformaður Ferðaþjónustu bænda, í tilkynningu. Hann hefur leitt viðræður í tengslum við kaupin á Súlu Travel.

„Þegar horft er til vaxtar skemmtiferðasiglinga á heimsvísu og vaxandi eftirspurnar á meðal yngra fólks er ljóst að viðskiptavinir beggja aðila munu njóta góðs af auknu úrvali spennandi ferða um allan heim. Það verður auðvelt að fylla dagatalið allt árið um kring með ferðum hjá Bændaferðum,“ segir Berglind Viktorsdóttir framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf. í tilkynningu.

Sameina á alla starfsemina í höfuðstöðvum Bændaferða í Síðumúla 2 fyrir árslok.

Ferðaþjónusta bænda hf. var stofnuð árið 1991 af íslenskum ferðaþjónustubændum, en forsaga fyrirtækisins nær aftur til ársins 1965 þegar erlendum ferðamönnum var fyrst boðið að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi. Í dag starfar fyrirtækið undir tveimur vörumerkjum, annars vegar Hey Iceland sem býður upp á gistingu, afþreyingu og ferðum á landsbyggðinni og hins vegar Bændaferðir sem býður upp á pakkaferðir með íslenskri farastjórn um allan heim. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×