Viðskipti innlent

Telur neyt­endur hafa unnið pyr­rosar­sigur í vaxta­málinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Helga Tómassyni, prófessor emeritus, hugnast ekki fleiri pyrrosarsigrar neytenda eins og hann telur dóminn í vaxtamálinu svonefnda hafa verið.
Helga Tómassyni, prófessor emeritus, hugnast ekki fleiri pyrrosarsigrar neytenda eins og hann telur dóminn í vaxtamálinu svonefnda hafa verið. Vísir

Prófessor emeritus í hagrannsóknum líkir nýlegum hæstaréttardómi í vaxtamálinu sem Neytendasamtökin hafa fagnað við pyrrosarsigur sem hvorki neytendur né samfélagið þurfi fleiri af. Það séu þeir sem sitji á endanum uppi með kostnaðinn af þeim breytingum sem dómurinn kalli á.

Ákveðnir skilmálar lána með breytilega vexti hjá Íslandsbanka voru dæmdir ólögmætir í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði. Bankinn hefði aðeins mátt miða við stýrivexti Seðlabankans þegar hann ákvað breytingar á vöxtum lánanna.

Bankarnir og fleiri lánastofnanir hafa brugðist við með því að hætta tímabundið afgreiðslu ákveðinna lána en bæði Landsbankinn og Arion banki bíða niðurstöðu í sambærilegum málaferlum gegn þeim.

Helgi Tómasson, prófessor emeritus í hagrannsóknum og tölfræði, gagnrýnir dóminn og segir hann furðulegan í aðsendri grein á Vísi í dag. Fráleitt sé að stýrivextir séu eina eðlilega viðmiðið fyrir vaxtaákvarðanir.

Sé dómurinn sigur fyrir neytendur sé ljóst að hann sé þeim dýrkeyptur eins og sigur gríska herforingjans Pyrrosar á Rómverjum við Asculum um þrjú hundruð árum fyrir okkar tímatal.

„Þegar bókhaldið var gert upp eftir einn sigurinn á hann að hafa sagt að hann þyldi ekki fleiri svona sigra. Sigurinn var of dýrkeyptur. Svona sigrar hafa verið margir í sögunni og er oft svo í nútímanum, til dæmis í dómsmálum,“ skrifar Helgi.

Viðskiptavinir borgi brúsann

Eftir dóm Hæstaréttar þurfi her lögfræðinga og reiknimeistara á háu kaupi að fara yfir gamla lánasamninga.

„Það er ljóst að sú yfirferð er ekki ókeypis og viðskiptavinirnir borga hana,“ skrifar Helgi.

Takmarkanir á aðgengi fólks að lánum eftir dóminn skaði einnig marga. Fasteignasalar, seljendur og kaupendur finni strax fyrir því en á endanum lendi allt samfélagið í afleiðingunum.

„Sé dómur hæstaréttar í samræmi við lög þarf að breyta lögunum sem fyrst. Stýrivextir eru ekki algilt viðmið. Neytendur og samfélagið þurfa ekki fleiri sigra af þessari gerð,“ segir prófessorinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×