Innlent

Þriggja ára fangelsi eftir flug frá Ber­lín

Eiður Þór Árnason skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í málinu í gær.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í málinu í gær. Vísir/Vilhelm

Eduardo Aguilera Del Valle og Maria Estrella Jimenez Barrull hafa verið dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að flytja inn um 3,4 kílógrömm af kókaíni til landsins. Efnin fundust í ferðatöskum sem þau höfðu meðferðis í flugi frá Berlín í Þýskalandi til Keflavíkur þann 16. ágúst síðastliðinn.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Bæði játuðu þau sök samkvæmt ákæru lögreglu og gengust við því að hafa flutt inn 3.359,96 grömm af kókaíni með 66-82% styrkleika. Telst það stórfellt fíkniefnalagabrot.

Ekki tekið þátt í skipulagningu

Fram kemur í dómnum að ekki sé talið að hin ákærðu hafi verið eigendur fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Horft var til þessa og játninganna við ákvörðun refsingar en þau höfðu ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi. Á sama tíma var tekið tillit til þess að um „verulegt magn af fremur sterku“ kókaíni væri að ræða sem ætlað væri til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Þau voru einnig dæmd til að greiða óskipt tæplega 1,5 milljónir króna í sakarkostnað og um 1,3 milljónir króna hvor fyrir störf verjenda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×