Innlent

Þrír vasaþjófar hand­teknir á gisti­heimili Laugar­nes­hverfi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mennirnir eru grunaðir um þjófnað í Laugarneshverfi og mögulega víðar.
Mennirnir eru grunaðir um þjófnað í Laugarneshverfi og mögulega víðar. Vísir/Vilhelm

Þrír voru handteknir í umfangsmikilli lögregluaðgerð á gistiheimili í Laugarneshverfi í Reykjavík í gærkvöldi. Fólkið eru grunað um skipulagðan þjófnað á stór höfuðborgarsvæðinu. Þau eru grunuð um að hafa stolið bæði úr verslunum og af fólki matvælum, fjármunum og fleiru. Fyrst var greint frá á RÚV.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að lögregla meti nú hvort fólkið verði ákært, og í kjölfarið sótt um síbrotagæslu, eða hvort þeim verði vísað úr landi. Hann segir lögreglu hafa fengið um tug tilkynninga varðandi þjófnaðinn og eigi jafnvel von á fleiri tilkynningum.

Hann segir vasaþjófana af erlendum uppruna og að þeir hafi ekki verið lengi á landinu. Þeir eru af báðum kynjum.

„Það er það sem gerir þau svo ósýnileg, þau vinna í pörum og fólk á ekkert endilega von á þessu frá þeim,“ segir Unnar og að þetta fólk einbeiti sér sérstaklega að eldra fólki.

Ekki vera með mikla peninga á sér

Lögreglan hvetji fólk til að vera ekki með mikla peninga á sér, og ef það er með þá, að hafa þá ekki sýnilega. Fólkið horfi yfir öxlina á fólki og sé að fylgjast vel með.

Þá segir Unnar lögregluna mæla með því að nota frekar greiðslukort og að vera með eitthvað hámark á daglegum úttektum á kortinu.

„Við mælum með því að fólk búi sér til einhverjar varnir.“

Stutt er síðan tveimur mönnum var vísað úr landi fyrir vasaþjófnað en Unnar segir mennina sem voru handteknir í gær hafa beitt þekktum aðferðum vasaþjófa. Hann segir ekki liggja fyrir hvort mennirnir tengist þeim sem var vísað úr landi í nóvember en þeir hafi ekki verið lengi á landinu og virðist hafa komið til landsins í þessum eina tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×