Innlent

Fimm­tán leituðu á bráða­mót­töku vegna flug­elda­slysa

Atli Ísleifsson skrifar
Mynd tekin yfir Kársnesið í Kópavogi í átt að Arnarnesi á miðnætti.
Mynd tekin yfir Kársnesið í Kópavogi í átt að Arnarnesi á miðnætti. Vísir/Vilhelm

Fimmtán manns leituðu á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík vegna flugeldaslysa í gærkvöldi og í nótt. Þar af voru átta sem leituðu á spítalann vegna áverka á augum.

Þetta segir Páll Óli Ólason, staðgengill yfirlæknis bráðamóttöku Landspítalans, í samtali við fréttastofu. Hann segir að áverkarnir hafi verið misalvarlegir.

Páll Óli segir að fjöldinn í ár sé nokkuð áþekkur þeim sem hafi verið síðustu ár, ef frá eru talin síðustu áramót þar sem tveir leituðu á bráðamóttöku vegna flugeldaslysa.

„Við viljum auðvitað ekki sjá svona aukningu, en þetta er svipaður fjöldi og verið hefur á síðustu árum. Við viljum auðvitað að fólk beri virðingu fyrir flugeldum og passi sig,“ segir Páll Óli.

Hann segir að álagið hafi aukist á bráðamóttökunni þegar leið á kvöldið og nóttina. „Við erum viðbúin þessu og í heildina gekk vel hjá okkur.“

Auk flugeldaslysa þurfti starfsfólk bráðamóttöku meðal annars að hlúa að manni sem varð fyrir stunguárás í Reykjavík í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×