Innlent

Funda í janúar í kjara­við­ræðum flugstétta

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, og Berglind Kristófersdóttir, formaður FÍ.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, og Berglind Kristófersdóttir, formaður FÍ. Samsett

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, og Berglind Kristófersdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, FÍ, segja lítið að frétta í kjarasamningsviðræðum þeirra við Icelandair. Samningar félaganna við félagið losnuðu í haust og flugvirkja nú um áramót.

„Það er ekki búið að setja niður fund en það er yfirleitt gert með stuttum fyrirvara,“ segir Jón Þór um næsta fund samninganefndanna. Flestir séu í vaktavinnu og því henti yfirleitt betur að skipuleggja með stuttum fyrirvara.

Hann segir allan kjarasamninginn til umræðu í samningaviðræðunum.

Hlé var gert á viðræðum Icelandair og FÍA í september þegar FÍA kærði Icelandair til Félagsdóms fyrir hönd níu flugmanna sem ætluðu að nýta sér rétt til starfsloka við sextugt eftir 25 ára starf hjá flugfélaginu. Málinu var vísað frá dómi þar sem dómurinn taldi þau ákvæði sem kröfur flugmannanna voru reistar á ekki hluta af kjarasamningi. Því féll úrslausn utan valdsviðs dómsins.

Flugfreyjur funda líka í janúar

Berglind Kristófersdóttir formaður FÍ segir umræður ekki komnar langt á veg. Næsti fundur samninganefndanna sé í janúar. Hún segir sömuleiðis allan samninginn undir í viðræðunum.

Fjölda fólks var sagt upp seint á síðasta ári hjá Icelandair. Forstjóri félagsins sagði það gert í hagræðingarskyni til að snúa við rekstri fyrirtækisins. Flestir sem misstu vinnuna voru starfsfólk á skrifstofu félagsins í Hafnarfirði.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði þá aðstæður í flugrekstri verulega krefjandi. Í afkomutilkynningu félagsins í október sagði hann yfirvofandi kjaraviðræður við flugstéttirnar hafa áhrif á framtíð Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×