Sport

Met­ár í hlaupum á Ís­landi 2025 og unga fólkinu að þakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru margir farnir að hlaupa á Íslandi en þessar tvær tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og voru sáttar að hlaupi loknu.
Það eru margir farnir að hlaupa á Íslandi en þessar tvær tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og voru sáttar að hlaupi loknu. Vísir/Lýður Valberg

Hlaup á Íslandi hafa aldrei verið vinsælli en þetta kemur vel fram í fyrstu ársskýrslunni sem gefin er út um hlaupasamfélagið á Íslandi.

Það var síðan hlaupadagskra.is sem tók saman þessar afar merkilegu upplýsingar um stöðu mála á Íslandi. Skýrslan ber nafnið Hlaupárið 2025 en þar sést að þátttaka í skipulögðum hlaupum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og fjölbreytni viðburða hefur aldrei verið meiri.

141 hlaupatengdir viðburðir

Árið 2025 voru haldnir 141 hlaupatengdir viðburðir víðs vegar um landið, allt frá stuttum skemmtiskokkum og fjölskylduhlaupum yfir í krefjandi utanvegahlaup, maraþon, bakgarðshlaup og önnur úthaldshlaup. Skráningar í hlaupin fóru yfir 45 þúsund og fjölgaði þeim um rúmlega 25 prósent milli ára. Það sem meira er telst heildarhækkunin frá árinu 2023 vera 61 prósent sem er rosaleg aukning.

Mesti vöxturinn er í styttri vegalengdum og yngri aldurshópum en einnig er mikill vöxtur í bakgarðshlaupum og úthaldshlaupum, þar sem þátttakendur keppa í langvarandi áreynslu, oft yfir marga klukkutíma eða jafnvel daga. Þótt þessi hlaup séu fámennari en hefðbundin götuhlaup sýna gögnin stöðugan og skýran vöxt í skráningum og áhuga sem endurspeglar breytt viðhorf til hlaupa og þrekíþrótta á Íslandi.

Sérstaklega meðal yngri aldurshópa

Á sama tíma heldur breið þátttaka áfram að aukast, sérstaklega meðal yngri aldurshópa. Skráningum barna, ungmenna og ungs fullorðins fólks hefur fjölgað hraðar en í öðrum aldurshópum og meðalaldur fullorðinna hlaupara hefur lækkað milli ára. Þetta bendir til þess að hlaup séu að festast í sessi fyrr á ævinni sem aðgengileg og sjálfbær hreyfing. Það má segja að unga fólkið knýi áfram hlaupaæðið.

Kynjahlutföll almennt jöfn

Kynjahlutföll í hlaupum eru almennt jöfn, en skýrslan sýnir jafnframt skýran mun eftir vegalengdum. Konur eru í meirihluta í styttri vegalengdum, sérstaklega á bilinu sex til sextán kílómetrar, á meðan karlar eru fleiri í lengri vegalengdum.

Þátttaka erlendra hlaupara jókst einnig verulega árið 2025, sem sýnir að Ísland er orðið eftirsóknarverður áfangastaður fyrir hlaupaviðburði, bæði á götum og úti í náttúrunni.

Skýrslan Hlaupárið 2025 er mikið fagnaðarefni enda sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og markar upphaf reglulegrar, gagnadrifinnar yfirsýnar yfir hlaupaár Íslands. Hér fyrir neðan má sjá fleiri athyglisverðar tölur úr skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×