Erlent

Ráð­herra Trumps segir Evrópu móður­sjúka

Samúel Karl Ólason skrifar
Ursula von der Leyen og Scott Bessent virðast ekki sammála um stöðu sambands Evrópu og Bandaríkjanna.
Ursula von der Leyen og Scott Bessent virðast ekki sammála um stöðu sambands Evrópu og Bandaríkjanna. AP

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dregur í efa að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sé treystandi. Hann hafi samþykkt í fyrra að beita meðlimi Evrópusambandsins ekki frekari tollum en ætli sér þrátt fyrir það að setja tolla á nokkur ríki Evrópu í tengslum við hótanir hans í garð Grænlands.

Í ávarpi á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos í Sviss í morgun sagði hún að tollar Trumps vegna Grænlands væru mistök og að svona ættu vinir ekki að koma fram.

„Í stjórnmálum, eins og í viðskiptum, er samkomulag samkomulag og þegar vinir takast í hendur, verður það að hafa þýðingu,“ sagði hún.

Var hún að vísa til samkomulags sem hún gerði við Trump í Skotlandi í fyrra, þar sem hann samþykkti að setja ekki hærri en fimmtán prósenta tolla á flestar vörur frá Evrópu.

Von der Leyen fór um nokkuð víðan völl í ávarpi sínu en hún hét því að ríki Evrópusambandsins myndu standa saman við bakið á Grænlendingum. Þá talaði hún um að farið yrði í umfangsmiklar fjárfestingar á Grænlandi.

Evrópa þurfi að aðlagast breyttum heimi

Í ræðunni talaði hún einnig um það að eina leiðin til að tryggja öryggi á norðurslóðum fyrir Bandaríkin væri að gera það í samvinnu við aðra.

Hún sagði Evrópumenn ekki eingöngu telja Bandaríkjamenn bandamenn sína. Þeir væru vinir. Deilurnar þar á milli högnuðust eingöngu andstæðingum beggja.

Von der Leyen sagði Evrópu þurfa að aðlagast nýjum öryggisaðstæðum og að heimsálfan stæði frammi fyrir nýjum raunveruleika. Hún sagði hina gömlu heimsmynd vera dauða.

„Heimurinn er varanlega breyttur. Við þurfum að breytast með honum.“

Varar við „histeríu“

Skömmu áður en hún steig í pontu í Davos hafði Scott Bessent, fjármálaráðherra Trumps, ávarpað blaðamenn á hliðarlínu ráðstefnunnar. Hann sagðist standa í þeirri trú að samskipti Bandaríkjanna og Evrópu hefðu aldrei verið betri.

Hann sagði Evrópumenn í sams konar „histeríu“ og þeir voru í þegar Trump tilkynnti umfangsmikla tolla sína í apríl í fyrra.

Bessent sagði einnig að það versta sem ríki Evrópu gætu gert væri að svara fyrir sig gegn Bandaríkjunum.

„Það sem ég er að hvetja alla hér til að gera er að halla sér aftur, anda djúpt og leyfa hlutunum að gerast.“

Ráðherrann ítrekaði þó að hótunum Trumps í garð Grænlands og annarra ríkja Evrópu væri ekki hægt að líkja við aðra viðskiptasamninga. Ríki Evrópu ættu að halda sig við þá samninga sem búið væri að gera, nema þau ríki sem Trump hefur ákveðið að beita tollum fyrir að standa með Grænlendingum og Dönum.

Ósammála um svör

Ráðamenn í Evrópu hafa rætt sín á milli hvort þeir eigi að svara fyrir sig. Meðal annars kemur til greina að beita sérstökum lögum um efnahagsaðgerðir til að setja hefndartolla á vörur frá Bandaríkjunum.

Ekki hefur verið samhugur um það hvort Evrópa eigi að svara fyrir sig og þá hvernig. Margir vonast til þess að leysa málið með viðræðum.


Tengdar fréttir

Fyrsta árinu af fjórum lokið

Ár er nú liðið frá því Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna í annað sinn. Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á á þessu ári enda mættu Trump og hans fólk mun undirbúnara í Hvíta húsið en á hans fyrra kjörtímabili. Strax á fyrsta degi var ríkisstjórnin sett í fimmta gír og þar hefur hún að mestu verið.

Hættur að hugsa bara um frið fyrst hann fékk ekki Nóbelinn

Bandaríkjaforseti segist ekki lengur telja sig skyldugan til að hugsa aðeins um frið í heiminum eftir að hann hlaut ekki friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Þetta skrifar hann í bréfi til forsætisráðherra Noregs þar sem hann ítrekar hótanir vegna Grænlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×