Skoðun

Hreint ekki eins og at­vinnu­við­tal

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Mér finnst einhvern veginn eins og þeir sem vilja að við göngum í Evrópusambandið ættu öðrum fremur að vera með það á hreinu hvers konar ferli fer í gang þegar ríki sækir um inngöngu í sambandið. Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, er það hins vegar greinilega ekki. Nema hann tali gegn betri vitund. Í umræðum á Alþingi 20. janúar líkti hann því þannig við einfalt atvinnuviðtal. Upplýsingar um ferlið er víða að finna. Ekki sízt á vefsíðum Evrópusambandsins. Til að mynda má benda Grími á sérstakan upplýsingabækling sem Evrópusambandið hefur gefið út til þess að útskýra umsóknarferlið.

„Viðfangsefni samningaviðræðna um inngöngu [í Evrópusambandið] er geta umsóknarríkis til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem fylgja veru í sambandinu. Hugtakið „samningaviðræður“ getur verið villandi. Viðræðurnar snúast um skilyrði og tímasetningar upptöku, innleiðingar og framkvæmdar umsóknarríkis á reglum Evrópusambandsins – um 100.000 blaðsíður af þeim. Og þessar reglur (einnig þekktar undir heitinu acquis, franska fyrir „það sem hefur verið samþykkt“) eru ekki umsemjanlegar,“ segir þannig meðal annars í bæklingnum sem ber heitið „Understanding Enlargement.“

„Fyrir umsóknarríki snýst þetta í raun um að komast að samkomulagi um það hvernig og hvenær eigi að samþykkja og innleiða reglur og verklagsreglur Evrópusambandsins. Fyrir sambandið er mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningu og skilvirkni innleiðingar reglnanna af hálfu hvers frambjóðanda. Samningaviðræður fara fram milli aðildarríkja Evrópusambandsins og hvers umsóknarríkis og hraðinn þeirra fer eftir framvindu hvers lands við að uppfylla kröfurnar. Umsóknarríki hafa því hvata til að innleiða nauðsynlegar umbætur hratt og á skilvirkan hátt. Sumar þessara umbóta krefjast mikilla og stundum erfiðra umbreytinga á stjórnmála- og efnahagsskipulagi landsins,“ segir þannig áfram í bæklingi sambandsins.

Víða í gögnum Evrópusambandsins er fjallað með hliðstæðum hætti um eðli umsóknarferlisins að sambandinu. Er þetta lýsing á atvinnuviðtali? Svo sannarlega ekki. Nema um viðtal væri að ræða þar sem umsækjandinn þyrfti samhliða umsóknarferlinu að uppfylla alls kyns kröfur sem byggðust á því að hann tæki starfinu sem fælu í sér miklar breytingar á högum hans og aðstæðum óháð því hvort af ráðningunni yrði eða ekki. Til dæmis vera búinn að selja húsið sitt og kaupa annað í öðrum landshluta, flytja þangað, koma börnunum af stað í nýjum skóla, fara í alls kyns fjárútlát vegna ferlisins og svo framvegis.

Komið hefur enda skýrt fram í máli forystumanna Evrópusambandsins að umsókn um inngöngu verði að byggjast á skýrum vilja umsóknarríkisins til þess að ganga í sambandið og á þeim forsendum fari viðræðurnar fram. Eins og til dæmis Štefan Füle, þáverandi stækkunarráðherra Evrópusambandsins, orðaði það á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í október 2011. Skiljanlegt er að Evrópusambandssinnar vilji draga upp aðra mynd í þessum efnum en samrýmist veruleikanum. Grímur hvatti annars til þess í umræðunni á Alþingi að fólk kynnti sér málin. Hann hefði greinilega gott af því sjálfur.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×