Skoðun

Opið bréf til meiri­hluta Reykja­víkur­borgar: 850% hækkun gjalda hjá Reykja­víkur­borg og skekkt sam­keppnis­staða

Erik Figueras Torras skrifar

Að jafnt sé gefið

Þau sem þekkja mig vita að ég er kappsamur að eðlisfari, hvort heldur sem er í íþróttum eða viðskiptum. Fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi er ekki ólíkur góðum kappleik því þar ríkir öflug samkeppni sem heldur fólki á tánum og skilar ábata til neytenda. Það er þó grunnforsenda að leikurinn sé sanngjarn og reglurnar þær sömu fyrir alla. Því miður hefur Reykjavíkurborg hallað undirlagi samkeppni á fjarskiptamarkaði verulega.

Árið 2024 ákvað Reykjavíkurborg að hækka gjaldskrá fyrir afnotaleyfi af borgarlandi um 850%. Greiða þarf fyrir slíkt afnotaleyfi í hvert sinn sem fyrirtæki standa í einhvers konar framkvæmdum, svo sem þegar ljósleiðari er lagður innan Reykjavíkurborgar. Með þessari ákvörðun fór verðið á hverju leyfi úr 26.940 kr. árið 2023 í 241.250 kr. auk 14.900 kr. umsýslugjalds ári síðar. Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Mílu og fjölda annarra hefur þessari hækkun ekki verið hnikað.

Skerðing á samkeppni

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir slík gjöld og með hækkuninni eru rekstrarforsendur fyrir uppbyggingu ljósleiðara í eldri hverfum borgarinnar hreinlega brostnar.

Það vill svo til að Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar, sem er í meirihlutaeigu borgarinnar, hefur þegar lokið öllum helstu framkvæmdum í borgarlandinu, þar sem yfir þriðjung allra heimila, fyrirtækja og stofnana er að finna. Hækkunin hefur því lítil áhrif á helsta samkeppnisaðila Mílu, en fellur með fullum þunga á Mílu, sem hefur staðið í umfangsmiklum framkvæmdum við að skipta út eldra koparkerfi fyrir ljósleiðara. Með hækkun afnotagjaldsins stuðlar Reykjavíkurborg óbeint að einokun á afmörkuðum svæðum borgarinnar og dregur úr heilbrigðri samkeppni.

Ákall um sanngirni

Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir heilbrigðri innviðasamkeppni, þar sem möguleiki er á slíku, enda tryggir hún hag neytenda. Slík stefna kallar á jafnræði og fyrirsjáanleika.

Það skýtur skökku við þegar opinber gjöld eru hækkuð um 850% án nokkurs samráðs eða haldbærra skýringa og að með því sé samkeppnisstaða fyrirtækja skekkt verulega.

Ég skora á borgarfulltrúa meirihlutans að svara þessu bréfi og um leið nýta tækifærið til að sýna borgarbúum og atvinnurekendum hér í borg hvar hugur þeirra stendur í þessu máli. Samkeppni er góð, hvort sem er í íþróttum eða viðskiptum, en hún verður að fara fram á jöfnum grundvelli.

Höfundur er forstjóri Mílu.




Skoðun

Sjá meira


×