Erlent

Þrír látnir eftir að lest fór af sporinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þrír létust og margir slösuðust.
Þrír létust og margir slösuðust. EPA

Þrír eru látnir og fleiri slasaðir eftir að farþegalest fór út af sporinu í suðvesturhluta Þýskalands í gær.

Guardian greinir frá því að um hundrað manns hafi verið um borð í lestinni þegar hún fór skyndilega af sporinu um kvöldmatarleytið í skógi. Slysið átti sér stað skammt frá bænum Riedlingen í sambandslandinu Baden-Württemberg.

Orsök slyssins er enn ókunn en Deutsche Bahn staðfesti að einhver fjöldi fólks væri látinn og að fleiri væru slasaðir án þess þó að veita ítarlegri upplýsingar um fjölda slasaðra eða eðli sára þeirra. Tveir vagnar fóru út af sporinu.

Slysið er til rannsóknar hjá samgöngueftirlitsstofnunum og lokað hefur verið fyrir lestaumferð á fjörutíu kílómetra kafla sporsins.

Þýskir miðlar hafa greint frá því að mögulega hafi aurskriða valdið slysinu en veður hefur verið slæmt á svæðinu undanfarið með mikilli úrkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×