Fótbolti

Busquets stígur niður af sviðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Busquets getur kvatt sviðið sáttur eftir magnaðan feril.
Sergio Busquets getur kvatt sviðið sáttur eftir magnaðan feril. Getty

Spænska fótboltagoðsögnin Sergio Busquets hefur tilkynnt að takkaskórnir fari á hilluna á þessu ári, í síðasta lagi í desember.

Busquets, sem er 37 ára gamall, greindi frá þessari ákvörðun sinni í myndbandi á Instagram en hann hefur í tæpa tvo áratugi spilað sem atvinnumaður, fyrir Barcelona, Inter Miami og spænska landsliðið.

Busquets ætlar að klára tímabilið með Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni. Deildarkeppninni lýkur um miðjan október en ljóst er að Miami fer í úrslitakeppnina og það verður svo að koma í ljós hve langt liðið nær þar.

„Ég finn að það er kominn tími til að kveðja feril minn sem atvinnumaður í fótbolta. Þetta eru orðin næstum tuttugu ár þar sem ég hef notið þessarar ótrúlegu sögu sem mig dreymdi alltaf um. Fótbolti hefur gefið mér einstakar lífsreynslur á dásamlegum stöðum, með bestu ferðafélögunum,“ sagði Busquets í myndbandinu.

Óhætt er að segja að ferill hans hafi verið sérstaklega glæsilegur en Busquets lék yfir 700 leiki með Barcelona og vann til að mynda Meistaradeild Evrópu þrisvar, Spánarmeistaratitilinn níu sinnum og spænska bikarmeistaratitilinn sjö sinnum, sem og HM félagsliða í þrígang.

Þá varð hann heimsmeistari með Spáni árið 2010 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×