Fótbolti

Hótað brott­rekstri ef hann færi ekki á börurnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Samuel Moutoussamy skildi hvorki upp né niður.
Samuel Moutoussamy skildi hvorki upp né niður. Samsett/Skjáskot/Getty

Samuel Moutoussamy, leikmaður Lýðstjórnarlýðveldis Kongó á Afríkumótinu í fótbolta, hefur vakið athygli á netmiðlum fyrir að rísa á mettíma af börum eftir að hafa verið borinn af velli í fyrsta leik liðsins á mótinu gegn Benín. Hann skýrði ástæðu þess eftir leik.

Moutoussamy féll til jarðar eftir brot og lá um hríð. Dómari leiksins vildi meina að hann væri að eyða tíma þar sem Kongó leiddi leikinn 1-0 og Benín-menn að hóta jöfnunarmarki.

Myndskeið af Moutoussamy er hann stendur upp af börunum full frískur hefur farið sem eldur um sinu á vefmiðlum en hann segist hreinlega ekki hafa verið meiddur.

Í viðtali eftir leik greindi Moutoussamy frá því að dómari leiksins hafi hótað honum gulu spjaldi ef hann færi ekki á börunum út af, fyrst hann væri svo meiddur að hann þyrfti að liggja á vellinum um hríð.

Hann hafði þegar fengið gult spjald í leiknum og því í raun hótað brottrekstri. Þrátt fyrir að engin þörf væri á var kappinn því borinn fullfrískur af vellinum.

Kongó vann viðburðarríkan leikinn 1-0 en líkt og greint var frá í gær vildi Benín fá vítaspyrnu sem ekki var hægt að skera úr um vegna bilunar í VAR-dómarakerfi á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×