Erlent

Selenskí sver af sér drónaárás á heimili Pútíns

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Utanríkisráðherrann Sergei Lavrov segir að nú verði staðan í friðarviðræðunum endurmetin. 
Utanríkisráðherrann Sergei Lavrov segir að nú verði staðan í friðarviðræðunum endurmetin.  AP Photo/Amr Nabil

Volodómír Selenskí Úkraínuforseti hefur neitað fyrir að hafa átt nokkurn þátt í árás sem er sögð hafa verið gerð á eitt af heimilum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í nótt.

 Rússar segja að drónar hafi ráðist að húsinu og saka Úkraínumenn um aðild að málinu en Selenskí segir þetta aðeins vera tilraun Rússa til að koma friðarviðræðum út af sporinu. Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov segir að tæplega hundrað drónar hafi verið notaðir til verksins en húsið sem um ræðir er í Novgorad héraði í norðvesturhluta landsins.

Lavrov segir að árásin þýði að nú verði Rússar að endurmeta afstöðu sína til friðarviðræðnanna, þótt ekki standi til að draga sig út úr þeim að fullu. Selenskí talarhinsvegar um venjulegar rússneskar lygar og bendir á að Rússar hafi margoft gert árásir á Úkraínskar stjórnarbyggingar síðustu daga.

Óljóst er hvort Pútín hafi yfirhöfuð verið á staðnum þegar árásin var gerð og Lavrov segir að allir drónarnir hafi verið eyðilagðir af rússneskum loftvörnum áður en þeir hittu skotmark sitt. Skemmdir af völdum árásarinnar hafi því verið litlar og manntjón ekkert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×