Erlent

Vill lengri tryggingar og til­búinn til að hitta Pútín

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Alex Brandon

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að nýjar friðartillögur sem hafi verið til umræðu milli hans og Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, í Flórída í gær innihaldi meðal annars tillögu um fimmtán ára öryggistryggingar handa Úkraínu. Selenskí segir að þær yrði svo hægt að framlengja enn frekar en hann lagði til við Trump í gær að öryggistryggingarnar næðu til allt að fimmtíu ára.

Selenskí og Trump funduðu í gær en eftir fundinn sagði Trump að möguleiki væri á því að ljúka stríðinu innan nokkurra vikna, ef allt færi að besta veg. Þá staðhæfði Trump að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, vildi frið og hann vildi Úkraínumönnum allt hið besta.

Sjá einnig: Trump telur friðarsamkomulag mögulegt innan nokkurra vikna

Trump sagði þó að eftir væri að ræða stórt og víggirt svæði í austurhluta Úkraínu. Það er í Dónetsk-héraði en Rússar hafa krafist þess að Úkraínumenn hörfi þaðan og fyrr verði ekki hægt að semja um frið.

Rússar hafa einnig talað um að Úkraínumenn hörfi frá fleiri héruðum sem þeir halda enn en Rússar hafa þrátt fyrir það innlimað samkvæmt þeirra stjórnarskrá.

Rússar hafa innlimað fimm héruð Úkraínu inn í Rússneska ríkissambandið, samkvæmt breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá Rússlands á undanförnum árum. Um er að ræða Krímskaga, Kherson, Sapórisjía, Dónetsk og Lúhansk.

Af þessum héruðum stjórna Rússar eingöngu Krímskaga og Lúhansk að fullu.

Sjá einnig: Heimta enn héruð Úkraínu sem þeir halda ekki

Umrætt svæði í Dónetsk-héraði er tiltölulega stórt og mjög víggirt. Rússar hafa lengi reynt að ná öllu héraðinu úr höndum Úkraínumanna en án árangurs.

Svæðið var á árum áður hernumið af Rússum og úkraínskum aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu en Úkraínumenn náðu því aftur og hafa síðan þá byggt upp miklar varnir þar. Úkraínumenn óttast að það að gefa Rússum þetta svæði myndi veita þeim stökkpall inn í Úkraínu, geri þeir aðra innrás seinna meir.

Hér að neðan má sjá yfirferð Wall Street Journal um svæðið umdeilda.

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, ítrekaði í morgun að friður kæmi ekki til greina án þess að Úkraínumenn hörfuðu frá þessu svæði.

Vill tryggingar til lengri tíma

Selenskí sagði í samtali við blaðamenn í morgun að stríðið hefði í raun þegar staðið yfir í næstum því fimmtán ár. Þess vegna væri mikilvægt að öryggistryggingar, sem hefur verið lýst á þann hátt að þær jafngildi 5. grein stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins um sameiginlegar varnir, næðu yfir lengra tímabil.

Þá sagði Selenskí að ef Rússar væru ekki tilbúnir til að koma á friði væru Bandaríkjamenn tilbúnir til að halda áfram stuðningi við Úkraínumenn.

Sá stuðningur er í dag að mestu leyti í formi upplýsingaöflunar og miðlunar. Það er mjög mikilvægur liður í vörnum Úkraínumanna en Bandaríkjamenn hafa í einföldu máli sagt veitt Úkraínumönnum upplýsingar um hvar rússneskir hermenn eru, hvert þeir eru að fara og hvað þeir gætu ætlað sér.

Þegar kemur að beinni aðstoð í formi hergagna hefur Trump ekki samþykkt nýjan aðstoðarpakka handa Úkraínumönnum frá því hann tók við embætti en Bandaríkjamenn selja Úkraínumönnum og bakhjörlum þeirra í Evrópu hergögn.

Tilbúinn til að hitta Pútín

Selenskí sagðist viljugur til að hitta Vladimír Pútín, forseta Rússlands, en orð Pútíns þyrftu að vera í samræmi við gjörðir hans. Það skyti skökku við þegar Pútín sagðist vilja frið á sama tíma og hann sagðist ætla að halda áfram að skjóta eldflaugum að úkraínskum borgum.

Þessar aðgerðir væru ekki í samræmi við þau fögru orð sem hann varpaði fram í samtölum sínum við Trump.

Selenskí sagði enn fremur að fundur í janúar, með Bandaríkjamönnum og Evrópumönnum, gæti opnað á beinar viðræður við Rússa.

Blaðamaður Financial Times í Úkraínu segir að þrátt fyrir stór orð sé í raun lítið breytt þegar kemur að líkum á friði á næstunni. Enn sé ekki búið að semja um öryggistryggingar, bakhjarlar Úkraínu, og þar á meðal Bandaríkjamenn, séu ekki tilbúnir til að veita tryggingar sem myndu koma fyllilega í veg fyrir nýja innrás Rússa.

Trump haldi áfram að lofa Pútín og sé ekki tilbúinn til að beita nægilegum þrýstingi gegn Rússum til að þvinga Pútín að samningaborðinu. Bandaríski forsetinn virðist vilja enda stríðið eins fljótt og hægt sé, án tillits til þess hvernig það sé gert.

Þá segir hann að Pútín hafi verið skýr um að hann vilji halda stríðinu áfram og eins séu Úkraínumenn ekki viljugir til að gefast upp fyrir Rússum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×