Enski boltinn

Fá arf­taka til bráða­birgða og bíða til sumars

Sindri Sverrisson skrifar
Darren Fletcher stýrir Manchester United á miðvikudaginn gegn Burnley en svo gæti mögulega nýr bráðabirgðastjóri tekið við, fyrir bikarleikinn við Brighton um næstu helgi.
Darren Fletcher stýrir Manchester United á miðvikudaginn gegn Burnley en svo gæti mögulega nýr bráðabirgðastjóri tekið við, fyrir bikarleikinn við Brighton um næstu helgi. Getty

Manchester United mun samkvæmt breska ríkismiðlinum BBC ætla að ráða nýjan þjálfara til bráðabirgða, annan en Darren Fletcher, í stað Rúbens Amorim sem rekinn var í morgun.

Amorim var rekinn eftir að hafa starfað í rúmt ár, eða frá því í nóvember 2024. Í tilkynningu United kom fram að það kæmi í hlut Darrens Fletcher, sem verið hefur aðalþjálfari U18-liðs félagsins, að stýra United gegn Burnley á miðvikudag. Framhaldið er óráðið.

Samkvæmt heimildum BBC ætlar United að ráða mann til að stýra liðinu út tímabilið og verður sá maður ekki Fletcher.

Í sumar gætu svo álitlegir kostir verið á lausu fyrir United og í grein Independent segir að Oliver Glasner, stjóri bikarmeistara Crystal Palace, sé efstur á blaði hjá eigendum United. Þessi 51 árs gamli Austurríkismaður er með samning við Palace sem rennur út í sumar og er búist við því að hann yfirgefi þá félagið eftir að hafa fært því fyrsta titilinn í sögu þess.

Glasner hefur átt í ákveðnu stappi við eigendur Palace, varðandi leikmannakaup, en samkvæmt Independent er samt búist við því að hann vilji klára tímabilið með liðinu og freista þess að stýra því til fyrsta titilsins í Evrópukeppni, með sigri í Sambandsdeildinni.

Miðillinn segir að Julian Nagelsmann gæti einnig verið inni í myndinni, vegna sambands við Christopher Vivell sem er yfir leikmannakaupum hjá United. Nagelsmann gæti viljað snúa sér aftur að félagsliðafótbolta eftir HM næsta sumar með Þýskalandi. 

Kieran McKenna hjá Ipswich og Enzo Maresca, sem rekinn var frá Chelsea á nýársdag, eru einnig nefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×