Enski boltinn

Segir að leik­menn eins og Rice séu þeir verð­mætustu í boltanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Declan Rice og félagar í Arsenal eru með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Declan Rice og félagar í Arsenal eru með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. getty/Shaun Brooks

Að mati Arnars Gunnlaugssonar hefur Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, virkjað fleiri þætti í leik Declans Rice. Hann segir enska landsliðsmanninn tilheyra hópi verðmætustu leikmanna fótboltans.

Rice skoraði tvívegis þegar Arsenal sigraði Bournemouth, 2-3, á Vitality-leikvanginum á laugardaginn. Skytturnar eru með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Rice hefur verið í lykilhlutverki hjá Arsenal síðan félagið keypti hann frá West Ham United fyrir rúmlega hundrað milljónir punda sumarið 2023. Arnar segir að Rice hafi bætt sig mikið hjá Arsenal.

„Það ber að hrósa Arteta og hans teymi fyrir hvernig þeir eru búnir að breyta honum sem leikmanni. Ég sá þetta ekki fyrir mér. Ég horfði á marga leiki með West Ham og enska landsliðinu og þá var hann varnarsinnaður miðjumaður að einhverju leyti,“ sagði Arnar um Rice í Sunnudagsmessunni í gær.

Klippa: Messan - umræða um Declan Rice

„Söluræða teymisins hjá Arsenal, sem Arteta hefur væntanlega leitt - þegar þeir hafa sest niður með Declan Rice og farið yfir það hvað ég ætla að gera fyrir þig sonur sæll - það er allt sem við erum að sjá núna. Það býr miklu meira í þér en þú hefur sýnt hjá West Ham og hjá okkur muntu ná öllum þínum draumum. Núna er hann alhliða miðjumaður. Hann getur varist og komist inn í teiginn og ég hef alltaf sagt að miðjumenn sem verjast eins og sexa en sækja eins og tía séu verðmætustu leikmennirnir í boltanum í dag.“

Albert Brynjar Ingason segir að Rice sé leiðtogi í liði Arsenal.

„Ég held að flestir Arsenal-stuðningsmenn, sem horfa á alla leiki, sjái að þrátt fyrir að hann sé ekki með fyrirliðabandið er hann leiðtoginn í þessu liði,“ sagði Albert.

Rice hefur leikið 27 leiki fyrir Arsenal í öllum keppnum á tímabilinu og skorað fjögur mörk.

Næsti leikur Arsenal er gegn Englandsmeisturum Liverpool á fimmtudaginn. Fjórtán stigum munar á liðunum.

Innslagið úr Sunnudagsmessunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Hef á til­finningunni að hann hafi talað af sér þarna“

Arnar Gunnlaugsson segir að Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi eflaust ígrundað vel og vandlega ummælin sem hann lét falla á blaðamannafundi í gær. Ummælin hafa vakið mikla athygli og spurningar um framtíð Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×