Erlent

Þyngdar­tap með lyfjum mun fljótara að ganga til baka eftir að notkun er hætt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
GLP-1 þyndarstjórnunarlyf eru góðra gjalda verð en skammtímanotkun þeirra er ekki langtímalausn.
GLP-1 þyndarstjórnunarlyf eru góðra gjalda verð en skammtímanotkun þeirra er ekki langtímalausn. Getty/Peter Dazeley

Fólk sem léttist með notkun GLP-1 þyngdarstjórnunarlyfja nær fyrri þyngd á innan við tveimur árum þegar það hættir að nota lyfin, eða fjórum sinnum hraðar en fólk sem léttist með öðrum hætti.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar vísindamanna við Oxford-háskóla, sem birtar voru í British Medical Journal.

Vísindamennirnir skoðuðu 37 rannsóknir á notkun þyngdarstjórnunarlyfja, sem náðu til samtals 9.341 einstaklings. Meðal meðferðartíminn var 39 vikur og eftirfylgnitímabilið 32 vikur. Eftir að notkun lyfjanna var hætt bættu þátttakendur við sig 0,4 kílóum á mánuði, að meðaltali. Meðalþyngdartapið af notkun lyfjanna var 8,3 kíló en á einu ári eftir að meðferð var hætt höfðu þátttakendur bætt aftur við sig 4,8 kílóum, að meðaltali.

Samanburður við aðrar megrunaraðferðir, megrunarkúra eða æfingarprógrömm, leiddi í ljós að þeir sem léttust á þyngdarstjórnunarlyfjum bættu þyngdinni aftur á sig fjórum sinnum hraðar en hinir.

Vísindamennirnir segja að þyngdarstjórnunarlyfjunum sé ekki um að kenna, heldur endurspegli niðurstöðurnar þá staðreynd að ofþyngd sé krónískur sjúkdómur sem krefjist viðhalds. Þannig séu niðurstöðurnar áminning um að horfa þurfi til lengri tíma þegar kemur að þyngdarstjórnun, ekki skammtímalausna.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×