Innlent

Krónan standi í vegi fyrir innviðaframkvæmdum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar.
Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Íslenska krónan stendur í vegi fyrir að hægt sé að ráðast í stórar innviðaframkvæmdir að mati þingmanns Viðreisnar.

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar, sem tók til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun sagði að allir þingmenn væru sammála um að vilja blómlega byggð hér á landi. Til að svo megi vera þurfi öfluga innviði.

„Fljótlega mun fara fram fyrsta umræða um samgönguáætlun sem snýst akkúrat um þetta, að tryggja að úti um allt land geti verið blómleg byggð,“ segir hann.

„Það kemur alltaf upp í umræðunni, sérstaklega í tengsl við jarðgöng, af hverju getum við ekki borað fleiri jarðgöng í einu? Af hverju getum við ekki gert eins og vinir okkar Færeyingar sem hafa borað talsvert meira af kílómetrum per íbúa en við hér á Íslandi og jafnframt hafa Norðmenn borað miklu fleiri kílómetra per íbúa en við hér á Íslandi.

Ingvar telur þó að helsta hindrun Íslands til að geta borað jafn mörg jarðgöng og Færeyingar sé kostnaðurinn við innviðauppbyggingu.

„Til að mynda kemur fram í skýrslu um Fjarðarheiðargöng og Fjarðagöng sem gefin var út af RHA að þegar þetta er skrifað er ávöxtunarkrafa á lengstu verðtryggð ríkisskuldabréf um 2,6%. Hjá nágrönnum okkar í Evrópu er víða notaður ávöxtunarstuðull þrjú til fjögur prósent en þar er raunávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa alla jafna lægri en á Íslandi,“ segir Ingvar.

„Fjármagn er einfaldlega dýrara í íslenskum krónum en í stórum vestrænum gjaldmiðlum, sérstaklega miðað við evru sem er næststærsti gjaldmiðill heims.“

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem fara á fram fyrir lok árs 2027, snúist meðal annars um þetta að mati Ingvars. Íslenska krónan standi því í vegi fyrir því að hægt sé að ráðast í stórar innviðaframkvæmdir um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×